Heilabrot

Nýtt úrræði til endurhæfingar fyrir fólk
með hegðunarvanda eftir heilaskaða.

Umsóknarferlið Leggðu okkur lið

Um Heilabrot

Heilabrot - endurhæfingarsetur er nýtt endurhæfingarúrræði fyrir fólk með hegðunarvanda eftir heilaskaða. Hegðunarvandi er algengt vandamál eftir heilaskaða og getur birst sem óviðeigandi hegðun, skortur á framtakssemi, mótþrói, sjálfskaðandi hegðun og jafnvel ofbeldi. Hegðunarvandi hefur áhrif á alla þætti endurhæfingar og tefur eða kemur í veg fyrir endurkomu fólks í samfélagið.

Fram til þessa hefur ekkert meðferðarúrræði verið í boði fyrir fólk í þessari stöðu hér á landi. Heilbrot býður upp á endurhæfingarmeðferð sem byggir á atferlisgreiningu (neurobehavioral rehabilitation) sem gefið hefur góða raun erlendis og gerir ráð fyrir að hefja starfsemi á næstu mánuðum. Meðferðin felst í því að þjálfa þessa einstaklinga í félagslega viðeigandi hegðun með aðferðum atferlisgreiningar þannig að þeir geti lifað í sátt og samlyndi við aðra í samfélaginu.

Heilabrot rekur meðferðarsetur þar sem tveir til fimm einstaklingar dvelja allan sólarhringinn á meðan endurhæfingu þeirra stendur en endurhæfing getur tekið allt frá nokkrum mánuðum upp í nokkur ár. Starfsfólk sem sér um atferlismeðferðina mun vinna í nánu samstarfi við heilaskaðateymi Reykjalundar en það teymi sér um aðra þjálfun og sálfræðiþjónustu en tilfinningaleg vandamál eins og kvíði, þunglyndi og áfallastreituröskun eru algeng hjá þessum hópi.

Sótt um endurhæfingu

Umsóknarferlið

Við reynum að hafa umsóknarferlið eins einfalt og hægt er. Til að leggja mat á hvort endurhæfingin gagnist væntanlegum þjónustuþega er nauðsynlegt að fá ítarlegar upplýsingar um hans vanda. Umsóknarferlið mun því taka tíma. Heilabrot - endurhæfingarsetur meðhöndlar persónuupplýsingar í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Umsóknarferli Umsókn til sveitarfélags Fá aðstoð
1 laust pláss

Fagráð Heilabrota

Fagleg stjórn starfsins er í höndum fagráðs. Fagráðið hefur yfirumsjón með meðferðarstarfi atferlisráðgjafa og atferlisþjálfa og einnig rannsóknaverkefnum sem unnin eru innan setursins Í fagráði eru Dr. Zuilma Gabríela Sigurðardóttir, prófessor við sálfræðideild HÍ, Dr. Berglind Sveinbjörnsdóttir, lektor við sálfræðideild HR, Karl Fannar Gunnarsson, yfirmaður endurhæfingardeildar fyrir einstaklinga með hegðunarvanda vegna ákominns heilasaka (Acquired Brain Injury Behaviour Service – ABIBS program) við West Park Healthcare Centre í Toronto og Ella Björt Teague, klínískur taugasálfræðingur og yfirsálfræðingur Reykjalundar.

Karl Fannar Gunnarsson
Karl Fannar Gunnarsson

Karl Fannar Gunnarsson er forstöðumaður endurhæfingarmeðferðar, sem byggir á atferlisgreiningu við West Park Healthcare Centre í Toronto. Hann ber ábyrgð á klínískri stjórn meðferðarinnar, handleiðslu nemenda og rannsóknum. Karl Fannar starfaði áður sem forstöðumaður sambærilegrar enduhæfingarmeðferðar við NeuroRestorative í Carbondale, Illinois, sem er stærsti meðferðaraðili Bandaríkjanna í atferlistengdri endurhæfingu við alvarlegum hegðunarvanda eftir ákominn heilaskaða. Karl Fannar lauk BA gráðu í Sálfræði frá Háskólanum á Akureyri, M.Sc. gráðu í Atferlisgreiningu og meðferð frá Southern Illinois University, og er í doktorsnámi (ABD) hjá sama háskóla með sérhæfingu í Atferlisgreiningu og endurhæfingu.

Karl Fannar hefur lagt stund klínískar- og grunnrannsóknir á víðu sviði atferlisgreiningar og gefið út vísindagreinar á því sviði. Karl Fannar hefur kynnt sínar rannsóknir og verkefni víða, meðal annars á alþjóðlegum ráðstefnum um atferlistengda endurhæfingu eftir heilskaða. Karl Fannar situr í stjórn félags atferlisfræðinga í Ontario (Ontario Association for Behaviour Analysis) og hefur ritrýnt greinar fyrir vísindatímarit í atferlisgreiningu.

Ella Björt Teague
Ella Björt Teague

Ella Björt lauk PhD gráðu í klínískri sálfræði, með séráherslu á klíníska taugasálfræði, frá The City University of New York árið 2013. Í starfsnámi sínu í Bandaríkjunum starfaði hún m.a. við Weill Cornell Memory Clinic, Columbia Comprehensive Epilepsy Center, Lutheran Medical Center og á réttargeðsjúkrahúsinu Colorado Mental Health Institute.

Ella Björt hefur starfað á Reykjalundi síðan árið 2013 og er nú yfirsálfræðingur í tauga- og hæfingarteymi Reykjalundar þar sem hún sinnir bæði taugasálfræðilegu mati, taugasálfræðilegri endurhæfingu og klínískri meðferðarvinnu. Ella Björt er í heilaskaðateymi Reykjalundar og hefur tekið virkan þátt í þróun á nýju hópmeðferðarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða. Hún hefur einnig kennt klíníska taugasálfræði í Cand. Psych námi við HÍ og sinnt starfsþjálfun nema bæði frá HR og HÍ. Ella Björt sinnir rannsóknum á sviði taugasálfræði.

Berglind Sveinbjörnsdóttir
Berglind Sveinbjörnsdóttir

Berglind hefur starfað sem lektor við Háskólann í Reykjavík frá árinu 2015. Hún starfaði í átta ár við New England Center for Children og hefur frá árinu 2007 starfað við kennslu í atferlisgreiningu og meðferð og sem atferlisráðgjafi, hérlendis og í Bandaríkjunum. Berglind kom á legg nýju meistaranámi í hagnýtri atferlisfræði við Háskólann í Reykjavík og hefur tekið virkan þátt í rannsóknum ásamt meistaranemum sínum. Hún hefur haldið erindi á sviði atferlisfræði á alþjóðlegum ráðstefnum. Berlind er með doktorspróf frá Western New England University

Zuilma Gabríela Sigurðardóttir
Zuilma Gabríela Sigurðardóttir

Zuilma Gabríela hefur verið í akademískri stöðu við Háskóla Íslands og kennt atferlisgreiningu og atferlismeðferð frá árinu 1999. Hún hefur útskrifað tugi BS-nema og handleitt lokaverkefni mastersnema úr klínisku og rannsóknarnámi. Hún tekur virkan þátt í rannsóknum á sviði atferlisgreiningar og atferlisíhlutunnar ásamt nemum á öllum stigum náms. Hún hefur gert rannsóknir þar sem fólk með heilaskaða hafa verið þátttakandur og hefur birt greinar um þær rannsóknir.

Zuilma er forstöðumaður Rannsóknastofu í atferlisgreiningu, hefur birt vísindagreinar á sviði atferlisgreiningar í virtum erlendum tímaritum og hefur kynnt tugi rannsókna á alþjóðlegum ráðstefnum. Hún er í stjórn Evrópufélags um atferlisgreiningu (European Association for Behaviour Analysis) og var forseti félagssins í tvö ár. Hún hefur verið aðstoðarritstjóri tveggja mikilvægara vísindatímarita um atferlisgreiningu. Hún hefur einnig komið að ritrýni í öllum helstu alþjóðlegum tímaritum um atferlisgreiningu, Hún er með doktorspróf frá Northeastern University í Boston og hefur einnig rekið stofu frá árinu 1992.

Samstarfsaðilar

Samstarfsaðilar

...
Háskóli Íslands
...
Háskólinn í Reykjavík
...
Westpark Healthcare Centre
...
Reykjalundur

Fréttir og hlekkir

Áhugavert efni

Styrkja

Leggðu okkur lið

Stuðningur þinn er sérstaklega mikilvægur nú á fyrstu skrefum starfseminnar. Með framlagi þínu hjálpar þú til við að koma af stað nauðsynlegu endurhæfingarúrræði fyrir fólk með heilaskaða.

Hafa samband

Það má hafa samband við okkur með því að senda tölvupóst á heilabrot@heilabrot.is. Það er einnig hægt að senda skilaboð með því að smella á ,,Hafa samband” hér fyrir neðan, skrá nafn, símanúmer og netfang og senda skilaboðin inn. Þú getur gefið stutta lýsingu á erindinu, ef þú vilt. Við reynum að svara skilaboðum og tölvupóstum eins fljótt og auðið er.